Select Page
19. júní, 2020

Viðtal við Hrönn Grímsdóttur náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú

Hversu lengi hefur þú unnið við náms- og starfsráðgjöf?

Ég réð mig í 50% stöðu í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað 2005. Var svo heppin að árið eftir var boðið upp á fjarnám í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ sem ég nýtti mér að sjálfsögðu og útskrifaðist 2008. Ég var í VA í 9 ár en færði mig svo yfir til Austurbrúar og hef starfað þar sem náms- og starfsráðgjafi í 3 ár.

Hvað kanntu best við í starfinu?

Starf náms- og starfsráðgjafans er virkilega skemmtilegt og spennandi. Verkefnin eru talsvert ólík eftir því hvort þú ert að sinna börnum, unglingum eða fullorðnu fólki en öll áhugaverð hver á sinn hátt. Það er virkilega gefandi að sinna fullorðnu fólki sem leitar til ráðgjafa vegna þess að það er tilbúið til að gera spennandi breytingar á lífi sínu. Að fá til þín einhvern sem hefur ef til vill ætlað sér að fara í nám í 15 ár en ekki lagt í að taka fyrsta skrefið fyrr en á þessum tímapunkti og fá að aðstoða við þessa ákvörðun er virkilega skemmtilegt.

Hver eru helstu verkefnin og hvernig skiptast þau?

Raunfærnimat er eitt af stóru verkefnunum. Að kynna og halda utan um slík verkefni, samstarf við aðrar stöðvar, beina fólki í rétta átt og aðstoða það eftir að matinu er lokið.  Að leiðbeina fólki í nám og fylgja því eftir er einnig stór þáttur og að aðstoða við að útbúa ferilskrá, setja markmið og finna starf við hæfi. Eins er ég reglulega með hópráðgjöf og fer þar í gegnum ýmislegt sem getur hjálpað fólki við að ná árangri.

Í hverju felast helstu faglegu áskoranir í starfi?

Náms- og starfsráðgjafar vinna oft einir og getur verið mikil áskorun að hafa ekki annan ráðgjafa til að deila verkefnum með og leita eftir stuðningi hjá. Það er nú að rætast úr þessu þar sem Þorbjörg Ólöf er byrjuð að vinna hjá Austurbrú og mun að hluta vinna sem náms- og starfsráðgjafi og finn ég strax mun. Ég vinn mikið með að auka sjálfstraustið hjá ráðþegum mínum sem efast mjög gjarnan um eigin getu til að sinna námi eða gera breytingar í lífi sínu. Þetta eru fullorðnir einstaklingar sem flestir eru með eigið heimili og margvíslega ábyrgð, það þarf mikið skipulag svo að hlutirnir gangi upp. Oft eru þessir einstaklingar með ranghugmyndir um að þeir geti ekki lært og sjálfsmynd tengda námi sem varð ef til vill til fyrir 20-30 árum. Áskoranir í starfi felast einnig í því að ná til ráðþega þar sem þeir eru staddir og ekki gleyma þeim sem þurfa ef til vill mest á þjónustunni að halda en er erfiðast að ná til. Eins er mikil áskorun fólgin í dreifbýlinu hér fyrir austan og oft fer mikill tími í akstur.

Hvernig er starfsþróun fyrir ráðgjafa háttað á þínum vinnustað?

Hjá Austurbrú er starfsemin mjög fjölbreytt og ekki öll fræðslutengd, einnig er unnið með atvinnuþróun og að markaðsmálum svo dæmi séu tekin. Reynt er að finna námskeið sem nýtast öllu starfsfólkinu á einhvern hátt. Til að mynda var boðið uppá námskeið í Office365 og núna síðast var námskeið í Notendamiðaðri þjónustuhönnun.

Hvaða eða hvers konar „verkfæri“ notar þú mest í ráðgjöfinni?

Ég nota áhugasviðskönnunina Bendil talsvert og hef útbúið verkefni sem ráðþegar geta unnið út frá þeim niðurstöðum sem þar fást. Ég nota einnig talsvert markmiðasetningu og gamla góða dagatalið til að gera tímaáætlun með ráðþegum. Í hópráðgjöf vinn ég t.d. með verkefni tengdum gildum, markmiðum og vana. Einnig skoða ég gjarnan hugarkort með ráðþegum, hvernig hægt er að byggja þau upp, hvenær þau nýtast best og hvernig hægt er að vinna þau.

Hefur Covid19 ástandið breytt miklu í vinnunni hjá þér … og þá hvernig?

Á Covidtímanum hefur ráðgjöf í gegnum netið aukist talsvert.  Það hefur gengið mjög vel og virðast ráðþegar flestir mjög sáttir við þessa aðferð, sérstaklega þeir yngri á milli tvítugs og þrítugs. Almennt hefur fjarfundum fjölgað sem við hér út á landi fögnum og vonumst svo innilega til þess að þessi þróun muni halda áfram eftir að allt kemst í eðlilegt horf. Ekki væri nú verra ef fjarnámi muni fjölga og þannig opna fleiri möguleika fyrir ráðþegana mína hér fyrir austan.

Annað sem þér dettur í hug?

Að mínu mati er mjög mikilvægt að eiga sér áhugamál utan vinnu. Ég hvet mína ráðþega og nemendur til að finna hvað þeim finnst skemmtilegt, hvað gefur þeim orku og lífsfyllingu og sinna þessum hlutum. Það eykur sjálfstraust í daglegum verkefnum og hækkar hamingjustuðulinn.
Ég hef sérstaklega gaman af því sem tengist hreyfingu á einhvern hátt, kenni jóga og hugleiðslu sem ég hef nýtt mér talsvert í starfi sem náms- og starfsráðgjafi. Ég snerti á mjög mörgum áhugamálum en legg ekki áherslu á að verða sérlega góð í neinu þeirra.  Ég hlakka mikið til hins íslenska ferðasumars, ég ætla að njóta náttúrunnar og treysti því að ég komi full af orku til vinnu eftir sumarfrí, tilbúin að gefa af mér og njóta vinnunnar.