Select Page
20. ágúst, 2020

Viðtal við Emil Björnsson náms- og starfsráðgjafa hjá SÍMEY

Hversu lengi hefur þú unnið við náms- og starfsráðgjöf?

Lengi, lengi. Áður en ég fór í nám í náms- og starfsráðgjöf hljóp ég öðru hvoru í skarðið þegar vantaði menntaðan ráðgjafa í menntaskólann þar sem ég starfaði. Mér líkaði starfið prýðilega en fann fyrir því að mig vantaði ákveðinn grunn til að vera öruggur. Í janúar 1998 fór ég síðan til starfa í framhaldsfræðslunni og þar rak maður sig á að fullorðið fólk, ekki síst markhópur framhaldsfræðslunnar þarf sannarlega á ráðgjöf að halda og þess vegna greip ég fegins hendi tækifæri sem gafst til fjarnáms í náms- og starfsráðgjöf sem HÍ bauð upp á 2001.

Gaman að segja frá því að ég er væntanlega einn af fyrstu menntuðu náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsfræðslunni, en hluta af þjálfun í náminu tók ég hjá MÍMI símenntun og þurfti að hafa dálítið fyrir því að fá þann vinnustað viðurkenndan sem viðeigandi starfsvettvang ráðgjafar. En margt hefur breyst.

Hvað kanntu best við í starfinu?

Ég kann ákaflega vel við að vinna með og fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar. Ég er upprunninn í samfélagi þar sem tiltölulega fáir fóru í ,,lengra“ nám þannig að það var ekki mikil hvatning að gera eitthvað slíkt. Tek þó fram að eftir að ég tók ákvörðun um að ,,læra“ eins og komist var að orði hafði ég fullan stuðning til þess. Þessi uppruni hjálpar mér að skilja fólk með stutta formlega menntun, samsama mig skoðunum þess og viðhorfum. Þar er ég á heimavelli þótt ég hafi stungið tánum inn fyrir dyr háskólasamfélagsins. Það sem ég lærði þar er bara hjálpartæki í starfi með markhópi framhaldsfræðslunnar. Það er dásamlegt að upplifa það þegar fólk vinnur sigra, fær t.d. góða niðurstöðu úr raunfærnimati, kemst áleiðis í kerfinu, fer út úr ráðgjöfinni beint í baki og með von í brjósti um breytta og bætta framtíð.

Hver eru helstu verkefnin og hvernig skiptast þau?

Verkefnin voru fyrst og fremst almenn ráðgjöf í gegnum viðtöl og áhugakannanir. Í seinni tíð hafa önnur viðfangsefni yfirtekið ráðgjöfina og er þar fyrst og fremst um að ræða raunfærnimat og hæfnigreiningar starfa. Bæði þessi verkefni eru frábærar aðferðir til að nálgast markhópinn, efla einstaklinga og gera oft vanmetin störf sýnileg og auka þannig vægi þeirra og þar með fólksins sem vinnur störfin.

Í hverju felast helstu faglegu áskoranir í starfi?

Vera sífellt að leita bestu leiða til að ná til markhópsins og ávallt að hafa í huga hvernig framhaldsfræðslan getur sem best þjónað markhópi hennar og að sjálfsögðu í samstarfi við annað starfsfólk framhaldsfræðslunnar.

Hvernig er starfsþróun fyrir ráðgjafa háttað á þínum vinnustað?

Ráðgjafar miðla gögnum og upplýsingum. Almennt er ráðgjöfum SÍMEY heimilt að sækja hvaða námskeið og fræðslu sem í boði er og talið að geti aukið hæfni í starfi.

Hvaða eða hvers konar „verkfæri“ notar þú mest í ráðgjöfinni?

Í stuttu máli, ég nota Holland og hef almennt reynt að temja mér ráðgjafanálgun Amundsen í samskiptum. Svo eins og áður hefur komið fram eru bæði raunfærnimat og hæfnigreining frábær ,,tæki“ til að vinna með viðskiptavinum framhaldsfræðslunnar á þeirra forsendum.

Hefur Covid19 ástandið breytt miklu í vinnunni hjá þér … og þá hvernig?

Eins og væntanlega hjá flestum  færðist ráðgjöfin meira og minna yfir í myndfundi, síma og tölvusamskipti. Reynslan held ég að hafi leitt í ljós að notkun myndfunda í auknum mæli hafi reynst ljómandi vel til að ná til ákveðinna einstaklinga, viðhalda samskiptum við þá sem ekki eiga endilega heimangengt, til að yfirvinna fjarlægðahindranir. Í stuttu máli, er þessi tækni frábær viðbót við hefðbundna ráðgjöf.

Annað sem þér dettur í hug?

Legg til að samtalsvettvangur náms- og starfsráðgjafa sem starfa innan framhaldsfræðslunnar verði efldur í þá veru að þeim gefist kostur að ræða meira saman og læra hver af öðrum. Ráðgjafar eru í ákveðinni  lykilstöðu að vinna með einstaklingum og fyrirtækjum með fagmennsku sína í áhaldatöskunni. Það þarf að gera gangskör í að efla ráðgjafana sem sölumenn þekkingar og leiða til að efla fólk og fyrirtæki.