Select Page

Kennslufræði

Stiklu námskeið

Námskeiðin eru hugsuð fyrir breiðan hóp fólks sem sinnir fullorðinsfræðslu og vill skerpa gæðin í fræðslustarfinu. Þau henta kennurum, leiðbeinendum, náms- og starfsráðgjöfum, starfsmönnum og stjórnendum við símenntunarstofnanir. Einnig geta þau hentað þeim sem sinna almennri mannauðsstjórnun innan fyrirtækja og stofnana og öðrum sem vinna að almennri uppbyggingu og eflingu fullorðinna.

Megináhersla er lögð á eftirfarandi þætti á námskeiðunum:

 • Að ræða nýjar leiðir í námi og kennslu í samræmi við viðhorf, hugmyndir og gæðakröfur til fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu og skilgreina hlutverk þeirra á síbreytilegum tímum.
 • Að beina sjónum að mismunandi forsendum fullorðinna nemenda og hvernig unnt er að koma til móts við þær með ýmsum skapandi aðferðum.
 • Að byggja upp og hanna árangursríkt fræðsluferli frá hæfnigreiningu/þarfagreiningu til mats. .
 • Að skoða tækni og aðferðir við að byggja upp fjölbreytt og gagnlegt námsefni. Mælistika um árangursríkt námsefni höfð til hliðsjónar.
 • Að kynna og prófa ýmsar árangursríkar aðferðir í námi, kennslu og mati á árangri þar sem lögð er áhersla á þarfir nemenda og námsánægju. Nýting tækni með ýmsu móti.
 • Að skoða tengsl náms og starfs og hvaða leiðir er hægt að fara til að námið nýtist sem best í starfi.
 • Að kynna viðhorf og aðferðir vegna ýmissa frávika þar sem þörf er fyrir sérstaka nálgun.
 • Gæðahugsun í fræðslustarfi, að líta á fræðslu sem ferli sem þarf að vera í stöðugri mótun og endur-skoðun.

Tilhögun: Stiklur eru skipulagðar sem fjölmargir mismunandi námskeið sem eru að hámarki 5 klukkustundir hver. Hægt er að halda hvern námskeiðsþátt fyrir sig en einnig að setja þá saman á mismunandi hátt eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni. Saman mynda þeir eina heild þar sem ”stiklað” er á lykilatriðum í árangursríku fræðslustarfi með fullorðnum. Auk þess eru í boði sérsniðin námskeið og fræðslufundir í tengslum við námsskrár

 

Eftirfarandi Stiklur eru í boði:

Fullorðnir nemendur og forsendur þeirra - 5 klst.

Innihald: Einkenni og forsendur fullorðinna nemenda, mismunandi námsnálgun og aðferðir. Kennsla og nám. Hlutverk leiðbeinenda og nemenda í fullorðinsfræðslu.

Vinnubrögð: Lögð er áhersla á þátttöku, verkefnavinnu og hagnýta tengingu.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir í fullorðinsfræðslu - hraðnámsaðferðir - 5 klst.

Innihald: Fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir í fullorðinsfræðslu tengdar við mismunandi námsnálgun, lykilhæfniþætti og námsviðmið.

Vinnubrögð: Áhersla lögð á að skoða og skilgreina ýmsar náms- og kennsluaðferðir og hvernig þær henta mismunandi námsviðmiðum og aðstæðum á vettvangi. Þátttakendur prófa aðferðirnar, ræða áhrif þeirra og safna saman aðferðum sem þeir vilja  nýta í eigin verkefnum.

Verkkennsla/starfsþjálfun - 5 klst.

Innihald: Fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir í fullorðinsfræðslu tengdar við mismunandi námsnálgun, lykilhæfniþætti og námsviðmið.

Vinnubrögð: Áhersla lögð á að skoða og skilgreina ýmsar náms- og kennsluaðferðir og hvernig þær henta mismunandi námsviðmiðum og aðstæðum á vettvangi. Þátttakendur prófa aðferðirnar, ræða áhrif þeirra og safna saman aðferðum sem þeir vilja  nýta í eigin verkefnum.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir í fullorðinsfræðslu - Félagsmiðlar, upplýsingamiðlar og aðrar vefþjónustur - 5 klst.

Innihald: Hvernig félagsmiðlar geta nýst við nám og kennslu. Nokkrar gagnlegar þjónustur sem tengjast því að vista og miðla kennsluefni um vefinn. Nokkrir leikir, verkfæri og þjónustur sem geta gert nám og kennslu áhugaverðara, tilbreytingaríkara og gagnlegra en ella. Innihald námskeiðsins miðast við þarfir, viðfangsefni og áhugamál þátttakenda.

Vinnubrögð: Kennslan fer fram með stuttum fyrirlestrum, umræðum, einstaklings- og hópavinnu þar sem þátttakendur kynna sér sjálfstætt og/eða undir handleiðslu gagnleg verkfæri sem munu nýtast þeim í starfi.

Nauðsynlegt er að þátttakendur komi með fartölvur á námskeiðið og eftir atvikum: spjaldtölvur/snjallsíma allt með nauðsynlegum tengibúnaði.

Kynningartækni, framsetning og framkoma – 5 klst.

Innihald: Kynningaraðferðir, framkoma, framsetning, sjálftraust, miðlun. Hvernig náum við eyrum og augum þátttakenda.  Markaðssetning hugmynda, tæki, tól og trix.

Vinnubrögð: Þátttakendur undirbúa raunverulegar kynningar úr eigin starfi og æfa þær í litlum hópum. Kynningin tekin upp og hópurinn aðstoðar við að gefa góð ráð um hvað betur má fara í samræmi við hugmyndir sem kynntar voru.

Tæknistutt nám – 1- 5 klst.

Innihald: Tæknistutt nám er kennt í 1 klukkustundarlotu. Kynnt verður síðar hvaða efni er kennt.

Meðal annars: Fjarfundur, Rafrænir miðlar í tungumálanámi, smáforrit ofl.

 • Fjarkennsla
  • Innihald: Fjarkennsla og fjarfundir, styrkleikar og veikleikar. Kennslufræði fullorðinna í fjarfundi.
  • Hlutverk og framkoma leiðbeinanda, námsefni fyrir fjarkennslu. Staðnámskeið og/eða fjarfundur.
 • Rafrænir miðlar og smáforrit
  • Innihald: Kennt er á mismunandi smáforrit.
Að takast á við einstaklinga í erfiðum aðstæðum – 5 klst.

Innihald: Greining á ýmsum persónubundnum vandamálum sem upp koma í kennslu og ráðgjöf og hvernig á að takast á við þau. Verkferli, leikreglur og námshvatning.

Vinnubrögð: Fyrirlestrar, umræður og reynsludæmi til greiningar. Þátttakendur leggja einnig sjálfir til reynslusögur og dæmi sem hópurinn vinnur úr sameiginlega út frá ýmsum gefnum forsendum.

Grunnleikni: Úrræði við læsis- og ritunarvanda í námi fullorðinna – 5 klst.

Innihald: Ýmis ráð og aðferðir vegna læsis- og ritunarvanda í almennri fullorðinsfræðslu. Áhrif á líðan, viðbrögð fræðsluaðila, úrræði, gögn og tæki sem auðvelda nemendum námið.

Vinnubrögð: Fyrirlestrar, umræður, reynsludæmi og verklegar æfingar með forrit, tæki og gögn.

Skapandi hugsun í námi og starfi – 5 klst.

Innihald: Ýmsir grunnþættir skapandi hugsunar, æfingar og leikir, kennslu- og námsaðferðir sem efla skapandi hugsun.

Vinnubrögð: Stuttir fyrirlestrar, æfingar og leikir með úrvinnslu um skapandi kennslufræði og möguleika á samþættingu við ýmsar námsgreinar.

Nám og kennsla fatlaðra í framhaldsfræðslu – 5 klst.

Innihald: Forsendur fatlaðra nemenda, aðferðir og tæki sem nýtast vel við nám og kennslu fatlaðra

Vinnubrögð: Fyrirlestrar, umræður, reynsludæmi og verklegar æfingar með forrit, tæki og gögn.

Sérhönnuð námskeið

Námskeið og fræðslufundir í tengslum við námsskrár FA

Innihald: Markmið og áherslur í valinni námskrá. Tilurð og hugmyndagrunnur, sveigjanleiki, kennslufræði.

Vinnubrögð: Skoðaðar ýmsar leiðir við útfærslu, samþættingu og aðra framkvæmd námsmarkmiðanna. Kynning, umræður og hópvinna. Staðnámskeið eða fjarfundur

Nánari upplýsingar fást hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífins á netfanginu frae@frae.is