Select Page

EQM/EQM+ Gæðavottun

Saga EQM

Evrópska gæðamerkið, EQM, er afurð samstarfs átta Evrópuþjóða sem saman stóðu að verkefninu RECALL-Recognition of Quality in Lifelong Learning. Í fyrstu var verkefninu stýrt af Mennt – samstarfsvettvangi atvinnulífs og skóla en þegar Mennt hætti starfsemi í árslok 2007 fluttist verkefnið yfir til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA). RECALL-verkefninu lauk formlega í desember 2008.

Hlutverk FA að efla gæði fræðslustarfs
Eitt af hlutverkum FA er að efla gæði fræðslustarfs og ráðgjafar hjá fræðsluaðilum sem starfa í anda laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. FA gerir kröfu til samstarfsaðila um að þeir framfylgi almennum samningsskilmálum m.a. um gæði í framkvæmd og kennslu.

Fyrstu gæðaviðmiðin voru gefin út árið 2006
FA gaf út drög að handbók um gæðaviðmið í fullorðinsfræðslu árið 2006. Í henni má finna leiðbeiningar og viðmið um gæði í fullorðinsfræðslu, sniðin að þörfum þeirra fræðsluaðila sem eru í samstarfi við FA og/eða kenna eftir námsskrám FA. Viðmiðin eru í samræmi við almennar venjur hvað varðar sjálfsmat og úttektir á gæðum fræðslustofnana og er ætlað að auðvelda fræðsluaðilum slíka vinnu. Markmiðið með gerð handbókarinnar var að hanna gegnsætt og einfalt gæðakerfi sem hentaði starfsemi lítilla fyrirtækja og stofnana sem starfa hér á landi á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar og bjóða upp á námskeið fyrir markhóp FA. Hugsunin var að með því móti væri hægt að tryggja að ákveðnar lágmarkskröfur væru uppfylltar af öllum samstarfsaðilum og þar með leitast við að bæta kennslu og árangur náms og uppfylla væntingar allra hagsmunaaðila. Skoða gæðaviðmið FA frá 2006.

EQM – evrópsk gæðavottun í fullorðinsfræðslu
Þegar gæðaviðmið FA voru hönnuð var tekið mið af afurðum Evrópuverkefnisins ALL-accreditation of lifelong learning. Markmið ALL-verkefnisins voru að þróa gæðavottunarkerfi til að meta framboð á tungumálanámi og meðal afurða voru gæðaviðmið og sjálfsmat fyrir fræðsluaðila. Þegar því verkefni lauk fékkst styrkur frá Leonardo da Vinci menntaáætlun Evrópusambandsins fyrir framhaldsverkefni sem gekk út á að þróa hugmyndir og niðurstöður ALL-verkefnisins enn frekar. Framhaldsverkefnið hlaut nafniðRECALL – Recogniton of Quality in Lifelong Learning og hófst vinna við það í lok árs 2006. Samstarfsaðilar RECALL-verkefnisins komu frá Bretlandi, Danmörku, Íslandi, Ítalíu, Litháen, Noregi, Portúgal og Slóveníu. Markmiðið var að mæta aukinni þörf fyrir gæði og gagnsæi í símenntun og starfsþjálfun með því að þróa einfalt gæðastjórnunarkerfi sem fræðsluaðilar gætu nýtt við mat á námsframboði sínu. Enn fremur að hanna merki sem vottaðir fræðsluaðilar fengju til að nota við kynningu á þjónustu sinni. RECALL verkefnið skilaði einnig viðskiptaáætlun til kynningar á gæðamerkinu með því markmiði að gera vottunarferlið sjálfbært. Heimasíða EQM er www.europeanqualitymark.org.

RECALL valið fyrirmyndarverkefni
RECALL lauk formlega í árslok 2008 en um tveimur árum síðar var það valið eitt af 39 fyrirmyndaverkefnum á sviði gæðamála í starfsmenntun og framhaldsfræðslu af QALLL-verkefninu, sem var þematengt evrópskt samstarfsverkefni 15 landskrifstofa Menntaáætlunar ESB. Markmið QALLL-verkefnisins var að auka gæði og efla umræðu um gæðamál í starfsmenntun og framhaldsfræðslu í Evrópu. Í því skyni voru þróaðar tillögur fyrir þá sem starfa að gæðamálum menntastofnanna og einnig voru valin 39 fyrirmyndarverkefni sem mælt var með til yfirfræslu og frekari þróunar.

Innleiðing EQM gæðavottunar á Íslandi
Árið 2011 gerði FA samning við vottunarstofu um gæðavottunarúttekt og bauð fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sem eru í samstarfi við FA, að sækja um fyrstu úttektirnar. Viðbrögð voru mjög jákvæð og í júní 2012 hlutu fyrstu miðstöðvarnar EQM vottun. Í janúar 2013 var staðan þannig að þrettán fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar höfðu staðist gæðaúttekt og hlotið vottun skv. EQM gæðamerkinu.

Áframhaldandi þróun og útbreiðsla EQM
Árið 2011 hlaut FA styrk úr Leonardo da Vinci hluta Menntaáætlunar ESB til að leiða samstarfsverkefnið European Quality Mark for non-formal learning providers – further development. Styrkurinn er til tveggja ára og samstarfsaðiliar koma frá Noregi, Litháen, Ítalíu, Eistlandi, Tyrklandi og Íslandi (FA og Landsmennt). Markmiðið með verkefninu er m.a. að kanna frekari þróun á EQM innan óformlega menntakerfisins í Evrópu og að leita svara við því hvers konar miðlægt samstarf sé nauðsynlegt til að tryggja frekari útbreiðslu kerfisins. Verkefninu lýkur formlega um mitt ár 2013.

Á árunum 2014-2016 var unnið að endurskoðun viðmiða fyrir fræðslu í samstarfi við aðila frá Noregi, Litháen og Eistlandi. Tímabært var að endurskoða og einfalda viðmið í takt við þróun í gæðastarfi. Ný viðmið eru á heimasíðu EQM www.europeanqualitymark.org.

Þá hefur FA einnig þróað gæðaviðmið fyrir raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf í fullorðinsfræðslu og eru EQM gæðaviðmiðin höfð sem fyrirmynd við þá þróun. Stefnt er að því að gæðaviðmið verði í tveggja þrepa kerfi á árinu 2017, þar sem EQM viðmið verða áfram sniðin að þörfum á vinnumarkaði, fræðsluaðilum, litlum fyrirtækjum, fræðslusjóðum og stofnunum sem starfa hér á landi og bjóða upp á nám fyrir fullorðna. Auk þess eru viðmið fyrir fjölbreytta starfsemi innan framhaldsfræðslunnar (fræðslu, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf). Þessi viðmið bygga á sama grunni og EQM og hafa hlotið nafnið EQM+ til aðgreiningar.