Select Page

EQM/EQM+ Gæðavottun

Ferli EQM gæðavottunar

 • Fræðsluaðili sækir um til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) á sérstöku eyðublaði. Verði umsókn samþykkt er gerður samningur milli FA og fræðsluaðila og FA sendir fræðsluaðila gögn vegna vottunarinnar.
 • Eftir undirritun samnings og greiðslu árgjalds sendir FA umsóknina til matsaðila sem FA hefur valið sem úttektaraðila og gert samning við þess efnis.
 • Fræðsluaðili fyllir út EQM sjálfsmatseyðublöð.
 • Matsaðili og fræðsluaðili skipuleggja úttekt og ákveða í sameiningu dagsetningu vottunarheimsóknar.
 • Matsaðili undirbýr og framkvæmir úttekt út frá EQM matseyðublöðum. Úttektin felst í heimsókn til fræðsluaðila þar sem sjálfsmat er sannreynt og verkferlar skoðaðir.
 • Matsaðili skilar fræðsluaðila skýrslu eins fljótt og auðið er með ábendingum um það sem betur má fara og tilmælum um úrbætur þar sem þess er þörf.
 • Fræðsluaðili vinnur úrbótaáætlun og fær hana samþykkta hjá matsaðila. Ekki mega líða meira en 2-7 virkir dagar frá því að fræðsluaðili skilar inn úrbótaáætlun þar til svar berst frá matsaðila um samþykkt eða synjun áætlunarinnar.
 • Ef fræðsluaðili stenst ekki mat, fær hann leiðsögn og skilgreindan frest hjá matsaðila til að gera umbætur fyrir næstu matsheimsókn (aukaheimsókn er ekki innifalin í árgjaldi).
 • Að loknu úrbótaferli (ef við á) og aukaheimsókn (sé þess þörf) tilkynnir matsaðili Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hvort skilyrði vottunar hafi verið uppfyllt og staðfestir hvaða svið starfseminnar vottunin nær yfir.
 • FA afhendir fræðsluaðila viðurkenningarskjal sem staðfestir vottunina og sendir honum EQM gæðamerkið á rafrænu formi. Fræðsluaðili skuldbindur sig til að nota merkið í samræmi við reglur um notkun.
 • Fræðsluaðili yfirfer sjálfsmat sitt árlega og sendir Fræðslumiðstöð atvinnulífsins upplýsingar um breytingar sem hafa orðið á starfseminni og gæðastjórnun fræðslustarfsins.
 • EQM gæðavottun gildir í þrjú ár, sjá mynd.