Select Page
19. september, 2019

Vel heppnuð málstofa um raunfærnimat

Í gær héldu Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og NVL, norrænt tengslanet um nám fullorðinna, málstofu um raunfærnimat í atvinnulífinu. Til málstofunnar var boðið fulltrúum SA, ASÍ og þeirra fyrirtækja og annarra aðila sem taka þátt í verkefninu Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins sem Fræðslusjóður fjármagnar. Málstofan var haldin í tengslum við fund NVL netsins um raunfærnimat sem í eiga sæti fulltrúar allra Norðurlandanna og sátu þeir fulltrúar málstofuna. Um 60 manns sóttu málstofuna.

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA, opnaði málstofuna, bauð gesti velkomna og bauð Flosa Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins að taka við fundarstjórn. Þar næst tóku til máls Kristín Þóra Harðardóttir (SA) og Halldór Grönvold (ASÍ) sem sitja jafnframt í stýrihóp verkefnisins. Fjóla María Lárusdóttir og Haukur Harðarson, sérfræðingar FA og verkefnisstjórar, gerðu síðan grein fyrir verkefninu og helstu álitamálum við framkvæmdina í framtíðinni. Gestum var síðan boðið að taka þátt í netkönnun um þau álitamál og voru niðurstöður kynntar í lok fundar. Eftir kaffihlé gerði Anni Karttunen frá GlobEdu í Finnlandi grein fyrir nýjum áherslum í starfsmenntakerfinu í Finnlandi m.a. aukna áherslu á raunfærnimati inn í starfsmenntanám. Pär Sellberg, frá Landskrifstofu fagháskólanáms í Svíþjóð gerði síðan grein fyrir raunfærnimati í mismunandi atvinnugreinum í Svíþjóð.

Að loknum framsöguerindum tóku frummælendur þátt í pallborði og veltu fyrir sér t.d. fjármögnun, gæðaeftrilit og gildi niðurstaðna í raunfærnimati í atvinnulífinu, undir styrkri stjórn Flosa fundarstjóra.

Að lokum flutti Gunnur Líf Gunnarsdóttir frá Samkaupum, eitt þeirra fyrirtækja sem tekur þátt í verkefninu, erindi um viðhorf fyrirtækja til verkefnisins og ávinning allra þeirra sem þar taka þátt, starfsmanna og fyrirtækis.

Fram kom mikill og breiður stuðningur allra hagsmunaaðila við verkefnið og verkefnahugmyndina og er ljóst að niðurstöðurnar munu geta haft mikil áhrif á að draga fram hæfni markhóps FA og gera hana sýnilega í framtíðinni.

Látum Kristínu Þóru Harðardóttur frá Samtökum atvinnulífsins hafa lokaorðið en hún sagði í sínu erindi:

“Samtök atvinnulífsins hafa haldið á lofti þeirri hugmynd að vinnustaðurinn sé námsstaður og að með því að leysa raunveruleg verkefni í vinnunni þá lærum við. Í góðu og gefandi starfi fer þetta nám fram alla starfsævina og við lærum eitthvað nýtt með hverju nýju verkefni. Við öðlumst reynslu og færni sem nýtist okkur og við byggjum ofan á.

Fyrir þann hóp sem kemur á vinnumarkaðinn með takmarkaða formlega menntun getur það skipt öllu að fá þessa reynslu og hæfni staðfesta með einhverjum hætti þannig að það geti nýst viðkomandi til starfsþróunar, við atvinnuleit, eða ef leiðin liggur aftur á skólabekkVið sem höfum komið að undirbúningi verkefnisins um Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins trúum því það geti verið einn liður í því hvernig við getum brugðist við hröðum breytingum á vinnumarkaði. Við viljum búa til verkfæri sem gera okkur kleift að meta hæfni starfsmanna óháð því hvort hennar er aflað inni í skólastofu, á vinnustað, á YouTube eða einhversstaðar allt annarsstaðar. Með því að færa atvinnulífinu verkfæri til að skilgreina störf og þá hæfni sem þarf til að sinna þeim, erum við um leið að staðfesta að breytingarnar verða úti í fyrirtækjunum og atvinnulífið er best í stakk búið til að ákvarða hvaða hæfni er mikilvæg og verðmæt á hverjum tíma.”

Hér má nálgast glærur frá málstofunni

 

Fjóla María Lárusdóttir og Haukur Harðarsson

Flosi Eiríksson

Gunnur Líf Gunnarsdóttir

Halldór Grönvold

Kristín Þóra Harðardóttir

Pär Sellberg, Anni Karttunen og Arna Jakobína Björnsdóttir

Gestir á málþinginu

Gestir á málþinginu