Select Page
15. október, 2019

Skapandi vinnustofa um heimsmarkmiðin

Þann 10. október stóðu mennta- og menningarmálaráðuneytið, Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir skapandi vinnustofu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4.7 um aðgengi allra til menntunar 2030. Vinnustofan var liður í dagskrá formennskuáætlunar Íslands fyrir norrænt samstarf 2019. Markhópurinn var ungt fólk á aldrinum 18-30 ára. Dagskráin hófst með heimsókn til CCP þar sem þátttakendur fengu kynningu á tölvuleikjunum sem fyrirtækið framleiðir og þeim möguleikum sem felast í tölvuleikjum til menntunar og þjálfunar. Við opnun vinnustofunnar sem fram fór í Borgarleikhúsinu hvatti Lilja Alfreðsdóttir þátttakendur til þess að beita gagnrýnni hugsun, mynda sér skoðun og leggja fram skapandi tillögur um hvernig hægt er að hrinda af stað nauðsynlegum breytingum á heiminum til þess að nálgast heimsmarkmiðin.

Ungt fólk hvaðanæva af Norðurlöndum greip tækifærði, tók virkan þátt í umræðum og lagði fram fjölmargar hugmyndir um hvaða leiðir það sæi færar. Þátttakendur notfærðu sér nútíma tækni, lögðu fram frumlegar og skapandi tillögur meðal annars á menti.com og padlet.com. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og NVL taka niðurstöðurnar saman og koma þeim á framfæri.