Select Page
16. júní, 2021

Raunfærnimat og afhending fagbréfa hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Föstudaginn 11. júní lauk formlega tilraunaverkefninu raunfærnimat á móti starfi sérhæfðs þjónustufulltrúa hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Útskriftin fór fram við hátíðlega athöfn í húsnæði HMS á Sauðárkróki að viðstöddum Sóleyju Jónsdóttur sérfræðingi á gæða- og mannauðssviði HMS, ásamt Sigríði Guðmundsdóttur og Lilju Rós Óskarsdóttur frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Guðfinnu Harðardóttur og Sólborgu Öldu Pétursdóttur frá Fræðslusetrinu Starfsmennt
Þátttakendum var afhent fagbréf sem staðfestir hæfni þeirra á þriðja þrepi íslenska hæfnirammans um menntun. En við greiningu á starfi sérhæfðs þjónustufulltrúa kom í ljós að verkefnin krefjast hæfni á þriðja þrepi.


Frá vinstri: Ásgrímur S. Sigurbjörnsson, Unnur Sævarsdóttir, Hjördís J. Tóbíasdóttir, Hrönn Pétursdóttir, Lára Greta Haraldsdóttir og Aníta Hlíf Jónasdóttir.

Miklar breytingar eru að verða á störfum í þjónustuverum HMS og sífellt er meiri þörf fyrir sérhæft starfsfólk sem getur veitt viðskiptavinum margskonar ráðgjöf og sinnt úrlausn flókinna mála. Í tilraunaverkefninu var lögð áhersla á að greina hæfnikröfur starfsins eins og það er hjá HMS og byggja matslista á þeirri greiningu. Þátttakendur í raunfærnimatinu fengu færni sína metna og fengu að matinu loknu þjálfun á vinnustað sem var sérsniðin að hverjum starfsmanni, auk námskeiða sem hentuðu hópnum með það að markmiði að allir næðu þeirri hæfni sem þarf til að inna starf sérhæfðs þjónustufulltrúa vel af hendi. Þannig að samhliða því að fá núverandi hæfni metna og staðfesta fékk starfsfólk tækifæri til að þjálfa sig fyrir flóknari verkefni sem hefur jákvæð áhrif á starfsþróun þeirra og kjör.

Raunfærnimati í atvinnulífinu er ætlað að gera færni fólks sýnilega, og þjálfun í kjölfarið markvissari sem er mikils virði fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt.

Mikil þekking og færni starfsfólks er nú stjórnendum HMS og starfsfólkinu sjálfu vel sýnileg í kjölfar raunfærnimatsins og sagðist Sóley Jónsdóttir vera sannfærð um að þátttakan í verkefninu nýttist bæði starfsstöðinni og þátttakendum vel í framtíðinni.
Við útskriftina sagði Sigríður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri FA m.a. að eitt af því mikilvægasta í færniuppbyggingu í atvinnulífinu er að gera núverandi færni starfsfólks sýnilega því þannig verður fræðsla og færniuppbygging markviss og kemur bæði starfsfólki og atvinnulífinu til góða.
Þá kom Sólborg Alda inn á það við útskriftina, að þátttakendur hafi sýnt mikla seiglu í þessu verkefni þar sem aðstæður í Covid hefðu sett mikið strik í reikninginn. Hún þakkaði einnig hversu fagmannlega matsaðilar hjá HMS stóðu að öllu matsferlinu, en matsaðilar komu frá stofnuninni enda fáir aðrir sem hafa þá innsýn og þekkingu sem mat á starfinu krefst.

Tuttugu ára starfsafmæli segir mikið til um hversu gott er að vinna hjá HMS. Unnur Sævarsdóttir átti tuttugu ára starfsafmæli þennan dag og var mjög vel við hæfi að fá afhent fagbréf til staðfestingar þeirrar miklu hæfni sem starfið krefst. Hún sagði við tilefnið: „það hefði verið mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni og það segði sína sögu um vinnustaðinn. Þau væru nokkur sem hefðu unnið virkilega lengi á vinnustaðnum og full ástæða til að klappa fyrir vinnustaðnum.“

Unnur Sævarsdóttir á 20 ára starfsafmælinu sínu hjá HMS
Unnur Sævarsdóttir á 20 ára starfsafmælinu sínu hjá HMS