Select Page
26. nóvember, 2020

Ragnhildur Gísladóttir og Guðbergur Reynisson hljóta viðurkenninguna fyrirmyndir í námi fullorðinna

Viðurkenning til fyrirmynda í námi fullorðinna var veitt við hátíðlega athöfn á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem fram fór í dag. Ragnhildur Gísladóttir og Guðbergur Reynisson hljóta viðurkenninguna í ár. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir.

Ársfundur FA var haldinn undir yfirskriftinni Í takt við tímann? Hæfniþróun í atvinnulífinu. Sjónum var beint að þörfum vinnumarkaðarins fyrir hæfni og ýmsum leiðum til hæfniþróunar. Á meðal fyrirlesara voru Ida Thomson, ráðgjafi Bättra Konsult, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Í umsögn um viðurkenningarhafa segir:

Ragnhildur Gísladóttir var í starfsendurhæfingu þegar hún kom fyrst í náms- og starfsráðgjöf hjá Fræðsluneti Suðurlands. Í janúar 2017 tók hún þátt í raunfærnimati í almennri starfshæfni og skráði sig í framhaldinu í nám við Skrifstofuskólann hjá Fræðslunetinu. Síðan þá hefur hún lokið Menntastoðum og námi á Háskólabrú Keilis. Í dag stundar hún nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Ragnhildur hefur sýnt ótrúlegar framfarir í námi og haldið ótrauð áfram. Hún hefur sett sér skýr markmið og látið drauma sína rætast.

Guðbergur Reynisson hafði ekki setið á skólabekk í 25 ár þegar hann hóf nám í sölu-, markaðs- og rekstrarnámi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum árið 2013. Það kom honum skemmtilega á óvart hversu vel gekk. Hann býr yfir mikilli þrautseigju og dugnaði og hefur það að markmiði að gefast ekki upp. Hann tileinkaði sér í náminu að setja sér skýr, raunhæf og tímasett markmið. Guðbergur er eigandi og framkvæmdastjóri Cargo flutninga í Reykjanesbæ en hann stofnaði fyrirtækið þegar hann hafði misst vinnuna í kjölfar hrunsins árið 2009. Guðbergur segir að námið hafi nýst honum vel og verið hluti af örum vexti fyrirtækis hans.

Forstöðumenn Fræðslunets Suðurlands og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, sem tilnefndu fyrirmyndirnar, afhentu viðurkenninguna. Advania styrkti veitingu viðurkenninganna í ár með veglegri gjöf.

Guðbergur Reynisson ásamt Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanni og starfsfólki MSS – Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum

Á forsíðumynd: Ragnhildur Gísladóttir