Select Page
22. júní, 2021

Rafræn ráðgjöf Norðmanna

Þann 8. júní síðastliðinn var afar fróðlegum viðburði streymt frá Noregi þar sem fulltrúar Kompetense Norge kynntu Karriereveiledning.no, nýtilkomna miðlæga og rafræna starfsferilsráðgjöf. Óhætt er að segja að þetta framtak Norðmanna sé með því allra áhugaverðasta sem gerst hefur á vettvangi ráðgjafar um nám og störf nýlega, en þjónustan opnaði í september 2020. Ráðgjöfin nær til landsins alls og er notendum að kostnaðarlausu. Mikið er lagt upp úr gæðum, bæði hvað varðar samskipti í sjálfri ráðgjöfinni og þeim upplýsingum og gögnum sem henni tengjast.

Ingjerd Espolin Gaarder, deildarstjóri fyrir starfsferilsráðgjöf, fjallaði um aðdraganda verkefnisins og undirbúning, allt frá fyrstu ábendingum OECD að því þegar stjórnvöld ákváðu að byggja upp alhliða kerfi ævilangrar ráðgjafar. Hún fjallaði m.a. um hvernig tókst að byggja á þeim grunni sem fyrir var, bæði þjónustu ráðgjafa og upplýsingavefnum Utdanning.no sem og þann gæðaramma sem verkefninu er settur.

Kynningin á YouTube

Eirik Øvernes fjallaði um ráðgjafateymið, þau markmið sem sett voru og reynsluna af þessum fyrstu níu mánuðum rafrænnar ráðgjafar. Eirik gaf afar áhugaverða innsýn í bæði kosti og takmarkanir þjónustu sem ríflega 13000 manns hafa þegar nýtt sér og 98% segjast ánægð með. Einnig hvernig aukin þekking byggist upp innan ráðgjafahópsins og eflir þjónustuna jafnt og þétt. Fjölbreyttur bakgrunnur ráðgjafateymisins er enda talinn styrkur fyrir heildarmyndina þar sem hver ráðgjafi bæði lærir af öðrum og sækir þangað stuðning.

Kynningin fór fram á ensku en að henni lokinni svöruðu þau Ingjerd og Eirik spurningum og vangaveltum fundargesta. Bryndís Skarphéðinsdóttir hjá FA var fundarstjóri, en fundurinn var haldinn af NVL á Íslandi í samvinnu við Kompetanse Norge, FA og Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar.

Viðburðinn má nálgast hér – Rafræn starfsferilsráðgjöf 8. júní.