Select Page
10. nóvember, 2020

OECD um NæstaSkref.is

Nýlega kom út skýrsla á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um miðlun upplýsinga í tengslum við náms- og starfsval – The role of labour market information in guiding educational and occupational choices. Þar er sjónum beint að mikilvægi þess að slíkar upplýsingar nýtist almenningi sem best og hvernig vefsvæði, sem byggð hafa verið upp í flestum OECD-löndum, geti stutt við árangursríkt náms- og starfsval.

Íslenski vefurinn NæstaSkref.is, sem FA hefur haft umsjón með, er þeirra á meðal og er í skýrslunni sérstaklega vakin athygli á gagnvirku korti sem sýnir dreifingu símenntunarmiðstöðva, sem og þægilegu aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum, bæði þar og á vefnum sjálfum. Þá er fjallað sérstaklega um áhugakönnunina og virkni hennar. Í kjölfar skýrslunnar hafa fulltrúar OECD einnig hrósað vefsvæðinu og FA fyrir það hversu læsilegar lýsingar á störfum og námsleiðum eru á vefnum, nokkuð sem vissulega hefur verið lögð nokkur rækt við og gaman að heyra að tekið er eftir.

Nýrri útgáfu vefjarins hefur líka verið vel tekið hér heima og umferð um hann aukist umtalsvert. Lýsingum á námsleiðum fjölgar jafnt og þétt og unnið að nýjungum sem vonandi munu áfram styðja við upplýst og vel ígrundað val fólks á námi eða starfi.