Select Page
10. september, 2020

Ný syrpa greina í Gátt

Í nýjustu greininni í Gátt  fjallar Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis-símenntunar um breytingar á vinnubrögðum hjá Mími á tímum heimsfaraldursins. Menntakerfið á Íslandi hefur ekki farið varhluta af þeirri óvissu sem fylgt hefur COVID-19. Skólahald hefur breyst í takti við sóttvarnarreglur sem yfirvöld boða hverju sinni. Mímir er stærsta símenntunarmiðstöð landsins og þar hefur skólahald færst hraðar inn í hinn stafræna heim en áætlað var.

Sólveig fjallar m.a. um að Mímir búi sig nú undir stóraukna eftirspurn með þróun úrræða fyrir þá sem missa vinnuna, bæði vegna áhrifa COVID-19 og fjórðu iðnbyltingarinnar. ,,Í deiglunni eru nýjungar til að mæta þessari þörf. Gott samstarf við atvinnulífið, starfsmennasjóði, stéttarfélög og verkalýðshreyfinguna er þar lykilatriði. Saman viljum við grípa þá sem missa vinnuna og aðstoða þá við færniuppbyggingu, sérstaklega hvað tækniþekkingu og færni varðar, því vitað er að fjórða iðnbyltingin hefur mikil áhrif á þróun starfa, bæði nú og í framtíðinni. Stærsta verkefni Mímis verður eftir sem áður að veita fullorðnum annað tækifæri til náms og efla sjálfstraust þeirra gagnvart námi og störfum. Einmitt núna þarf að gefa í og auka fé til þessa málaflokks.” segir Sólveig í greininni.

Greinin er sú fyrsta í röð greina um viðbrögð símenntunarmiðstöðva á Íslandi við COVID-19. Fleiri greinar fylgja í kjölfarið í haust.

 Lesið greinina hér á vef Gáttar:

Forsíðumynd: Mímir-símenntun. Ljósmyndari: Þorkell Þorkelsson