Select Page
7. febrúar, 2020

Ný skýrsla um grunnleikni fullorðinna í stafrænni færni

Skýrslan, sem kom út í lok janúar, fjallar um grunnleikni fullorðinna í stafrænni færni á Norðurlöndum. Skýrslan ber yfirskriftina Basic digital skills for adults in the Nordic countries. How can we turn challenges into opportunities?

Norrænt samstarfsnet um nám fullorðinna (NVL) hefur starfrækt net um grunnleikni fullorðinna síðan 2017. Í netinu eru fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum fimm og hefur þátttaka Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) gefið góða innsýn í hvernig aðrar þjóðir eru að nýta niðurstöður úr PIAAC til að efla grunnleikni fullorðinna. Á árunum 2018 og 2019 var ákveðið að leggja áherslu á stafræna færni og er skýrslan sem kom út í janúar afrakstur þeirrar vinnu. Í henni má finna yfirlit yfir stöðu mála hvað varðar færni fullorðinna í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð sem og samantekt úr SVÓT greiningu þar sem m.a. eru dregin saman möguleg tækifæri og áskoranir á þessu sviði. Út frá greiningu eru settar fram nokkrar tillögur varðandi stefnumótun í málaflokknum í öllum löndunum auk dæma um góð verkefni sem tengjast efninu.

Grunnleikni í stafrænni færni er eitthvað sem hver fullorðinn einstaklingur þarf að búa yfir til að geta tekið virkan þátt í atvinnulífi og samfélaginu og hefur í dag mikla þýðingu á öllum Norðurlöndunum. Ekki síst í ljósi þess að sjálfvirknivæðing og tækniþróunin er hröð og hefur einnig áhrif á vinnumarkaðinn þar sem sum störf hverfa og ný verða til.

Sjá nánar í skýrslunni hér