Verkefnið Starfs- og námsráðgjöf og hæfni í atvinnulífinu (Karrierevejledning og (real)kompetencer i arbejdslivet – KIAL) snýr að náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna á vinnumarkaði þar sem þörf á símenntun og starfsþróun eykst samfara hröðum breytingum í atvinnulífinu. Sýnd verða fjölbreytt dæmi um starfsferil fólks þar sem lögð er áhersla á að draga fram hvernig nýta má hæfni á nýjum vettvangi og/eða í annarskonar starfi og hvernig atvinnulíf og menntun spila saman.
Í öðrum hluta verður skoðað hvers konar hæfni og þekking er mikilvæg fyrir ráðgjafa til að sinna fullorðnum á vinnumarkaði. Einnig þær aðferðir og tæki sem best henta fyrir náms- og starfsráðgjöf við fólk sem vill eða þarf að breyta til eða skipta um starfsvettvang. Verkefninu lýkur með því að boðið verður upp á námskeið fyrir norræna ráðgjafa þar sem afurðir þess verða kynntar og prófaðar.
Samstarfsaðilar í KIAL verkefninu eru frá Íslandi, Finnlandi og Danmörku. Í hverju landi er ráðgefandi hópur náms- og starfsráðgjafa frá atvinnulífinu og mismunandi skólastigum, auk sérfræðinganets NVL um ráðgjöf, en þátttakendur verkefnisins eru jafnframt fulltrúar í því neti.
Lesið meira um verkefnið hér: https://www.kial.nu/