Select Page
27. ágúst, 2020

Hæfniþróun – frá framkvæmd til stefnumörkunar

Hvernig getum við gert betur fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar? 

Þá spurningu ræddu sérfræðingar á vettvangi framhaldsfræðslunnar og hagsmunaaðilar í vikunni á fundi á vegum Evrópuverkefnisins UP-AEPRO (Upskilling Pathways – Adult Education Professionals).  

Innihald verkefnisins var kynnt sem og afurðir þess, en meðal annars voru dregin fram árangursrík dæmi í fullorðinsfræðslu sem hægt er að líta til við þróun og stefnumótun hér á landi. Dæmin má finna í formi fjarerinda hér.

Dæmi um gott verklag eru einnig kynnt í nýlegri Stefnuyfirlýsingu EAEA um nám fullorðinna á 21. öldinni. 

Niðurstöðum fundarins verður miðlað inn í afurðir Aepro verkefnisins, m.a. Advocacy toolkit þar sem dregnar verða fram árangursríkar leiðir til hæfniþróunar fyrir fólk sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi. Jafnframt verða þær nýttar áfram inn í umræðuna hér heima – það má alltaf gera betur. 

Verkefninu lýkur í desember 2020. 

Nánar um verkefnið 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur í samstarfi við Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) og ýmsa fræðsluaðila í Evrópu tekið þátt í þróun fræðsluerinda á netinu um leiðir fyrir hæfniþróun (Upskilling Pathways) og stefnumótun innan Evrópuverkefnisins UP-AEPRO. Í verkefninu var útbúið fjarnámskeið (4 módúlar) fyrir sérfræðinga og stefnumótendur í fullorðinsfræðslu. Verkefnastýring er í höndum EAEA sem eru evrópsk samtök um fullorðinsfræðslu. NVL leitaði eftir samstarfi við FA í verkefninu til að miðla árangursríkum dæmum. 

Fjarnámskeiðið miðar að því að dýpka þekkingu og hvetja til umræðna um nýlega evrópska stefnu fyrir nám fullorðinna sem ber heitið Upskilling Pathways (UP). Markhópur stefnunnar eru um 60 milljónir Evrópubúa sem hafa ekki lokið námi á framhaldsskólastigi.  

Markmið verkefnisins er að auðvelda sérfræðingum og stefnumótendum og þeim sem taka þátt í þróun mennta/hæfnistefnu) að kynna sér þróun málaflokksins í Evrópu og fá innsýn í kerfi og þróunarverkefni annarra landa. Boðið er upp á fræðsluerindi frá ýmsum löndum í Evrópu og fjallað um fjölbreyttar leiðir til hæfniþróunar undir eftirtöldum flokkum: 

  • Yfirlit og innsýn í stefnu Evrópusambandsins í málaflokknum 
  • Mat á hæfni (skills assessment/skills audit) – kortlaggning á hæfni sem til staðar er 
  • Nám við hæfi – áhersla á að efla grunnleikniþætti eða auðvelda áframhaldandi hæfniþróun  
  • Viðurkenning og vottun – raunfærnimat 

Lögð er áhersla á að ná til markhópsins í gegnum árangursmiðaða vettvangsnálgun, ráðgjöf, leiðsögn og stuðningsúrræði. 

Hægt er að lesa nánar um fjarnámskeiðið og fara inn á það hér