Select Page
29. nóvember, 2019

Fyrirmyndir í námi fullorðinna 2019

Framtíðin hér og nú var yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Norræns tengslanets um nám fullorðinna sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík 28. nóvember. Á fundinum var Herdísi Ósk Sveinbjörnsdóttur, tilnefnd af Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Þresti Heiðari Erlingssyni, tilnefndur af Farskólanum, Miðstöð símmenntunar á Norðurlandi vestra, veittar viðurkenningar sem fyrirmyndir í námi fullorðinna árið 2019. Viðurkenningin og verðlaunin sem henni fylgja eru veitt einstaklingum hafa breytt stöðu sinni á vinnumarkaði eftir þátttöku í úrræðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Báðar fyrirmyndirnar hafa sýnt góðan námsárangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmis konar hindranir. Verðlaunin voru spjaldtölvur í boði Advania auk viðurkenningaskjala og blómvanda frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Á fjölsóttum fundinum sögðu þau Herdís Ósk og Þröstur Heiðar frá sinni reynslu af skóla, les- og skrifblindu og þeim hindrunum sem þau þurftu að hrinda úr vegi til að komast þangað sem þau höfðu stefnt að og dreymt um. Við afhendingu verðlaunanna hylltu fundargestir þau Herdísi Ósk og Þröst Heiðar sem standa vel undir nafn sem fyrirmyndir í námi fullorðinna árið 2019.