Select Page
29. nóvember, 2019

Framtíðin hér og nú

Var yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fimmtudaginn 28. nóvember. Salurinn var þétt setinn og enn fleiri fylgdust með á streymi. Í ávarpi sínu sagði Kristín Þóra Harðardóttir, formaður stjórnar FA að við yrðum öll að leggja okkar af mörkum við stærsta verkefnið, að breyta umgengni okkar við jörðina, yrðum að gæta að henni og þess að hún verði byggileg fyrir komandi kynslóðir. Þá beindi hún sjónum að stórfelldum breytingum á vinnumarkaði í kjölfar örrar tækniþróunar, hreyfiaflið er í atvinnulífinu og þess vegna er þátttaka atvinnulífsins í menntun starfsmanna svo mikilvæg.

Aðalfyrirlesarar voru Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna og Helena Mustikainen, sviðsstjóri hjá Sitra nýsköpunarsjóði í Finnlandi

Huginn kynnti niðurstöður nefndarinnar um hver áhrif breytingar á tækninni eru, breytt færni, uppbrot í samfélaginu og breytt skipulag atvinnulífs. Uppbrotið hefur í för með sér að störf hverfa og önnur verða til. Fólk verður að læra allt lífið, afla sér nýrrar færni og þekkingar til þess að takast á við breytingarnar. Í spá um 10 helstu færniþætti skipa geta til að leysa flókin verkefni, beita gagnrýnni hugsun og skapandi hugsun þrjú efstu sætin. 

Í erindi Helena Mustikainen kom fram að Sitra vinnur um þessar mundir að þriggja ára verkefni fyrir finnsku ríkisstjórnina um samkeppnishæfni og velferð með því að efla ævinám og færniþróun. Í samstarfi við 30 stofnanir, aðila atvinnulífsins og menntakerfisins hefur Sitra birt markmið fyrir þróun ævináms og færniþróunar. Of kostnaðarsamt verður að senda fólk á vinnumarkaði í nám í formlega menntakerfið til þess að sækja sér nauðsynlega færni heldur verður atvinnulífið og fræðsluaðilar sjá um það.

Í lok fundarins voru fyrirmyndum í námi fullorðinna veittar viðurkenningar, sjá frétt um fyrirmyndir í námi fullorðinna 2019.