Select Page
28. apríl, 2021

Almenn starfshæfni endurskoðuð

Breytingar hafa verið gerðar á skilgreiningu um almenna starfshæfni. Nýjum hæfniþætti, notkun upplýsingatækni, hefur verið bætt við og þátturinn öryggisvitund hefur verið fjarlægður.

Í ljósi aukinnar nýtingar á upplýsingatækni og kröfu um stafræna hæfni fólks í leik og starfi hefur hæfniþættinum notkun upplýsingatækni verið bætt við almenna starfshæfni.

Jafnframt hefur hæfniþátturinn öryggisvitund verið fjarlægður á þeim forsendum að hann á ekki nægilega vel við um öll störf á vinnumarkaði til að geta fallið undir skilgreiningu um almenna starfshæfni. Slíkur þáttur er ekki heldur sjáanlegur þegar horft er til fjölda sambærilegra erlendra skilgreininga. Áfram verður sá þáttur til í hæfnigrunni FA og hægt að velja hann við hæfnigreiningar þeirra starfa þar sem við á.

Almenn starfshæfni er hluti af öllum starfaprófílum og nýjum starfstengdum námskrám sem gefnar eru út af FA og mun þessi breyting hafa áhrif á nýja starfaprófíla og námskrár sem byggja á hæfnigreiningum hér eftir. Einnig hafa matslistar og gögn fyrir raunfærnimat í almennri starfshæfni verið uppfærð.

Framundan er gagnger endurskoðun á öllum þáttum almennrar starfshæfni með tilliti til þróunar á þörfum um hæfni á vinnumarkaði, hérlendis sem erlendis. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki á árinu.

Þeir hæfniþættir sem falla nú undir almenna starfshæfni eru:

 • Aðlögunarhæfni
 • Ábyrg nýting
 • Árangursrík samskipti
 • Jafnréttisvitund
 • Mat og lausnir
 • Notkun upplýsingatækni
 • Samvinna
 • Skipulag og áætlanir
 • Starfsþróun og færniefling
 • Söfnun og úrvinnsla upplýsinga
 • Vinnusiðferði og gildi

Nánari upplýsingar um almenna starfshæfni er að finna hér á heimasíðu FA.