Raunfærnimat á Íslandi

Á Íslandi hefur verið unnið að þróun raunfærnimats frá árinu 2002.  Frá upphafi hefur atvinnulífið haft beina aðkomu að þróuninni og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins, hefur fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins verið falið að halda utan um þróunarvinnu og innleiðingu þess. Markhópurinn á Íslandi eru, einstaklingar sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi. 

Árið 2010 voru samþykkt lög um framhaldsfræðslu þar sem meðal annars er að finna skilgreiningu á því hvað raunfærnimat er, hverjir eiga rétt á því, og um rétt til einstaklingsmiðaðrar náms- og starfsráðgjafar.

Þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

  • Raunfærnimat: Skipulagt ferli þar sem með formlegum hætti er lagt hald á alhliða þekkingu og færni einstaklingsins. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi
  • Þeir sem hafa stutta formlega skólagöngu og kjósa að leggja stund á nám sem skipulagt er á grundvelli laga þessara eða laga um framhaldsskóla eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin.
  • Þeim sem hyggjast leggja stund á nám sem uppfyllir skilyrði laga þessara stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf. Ráðherra er heimilt að setja reglur um náms- og starfsráðgjöf samkvæmt grein þessari.

Með raunfærnimati er óformlegt nám og starfsreynsla metin til jafns við formlegt nám og í reglugerð um framhaldsfræðslu frá því í nóvember 2011 segir:  "Niðurstöður raunfærnimats eru skráðar í gagnagrunn á vegum stjórnvalda. Með þeirri skráningu er óformlegt nám og starfsreynsla metið til jafns við formlegt nám".

Nú hefur farið fram raunfærnimat í 30 starfsgreinum og hafa yfir 1.500 einstaklingar lokið raunfærnimati. Í flestum tilvikum er um að ræða iðngreinar en markvisst er unnið að því að bæta við öðrum greinum.  Árið 2012 fékkst styrkur frá Evrópusambandinu til að auka fjölda greina þar sem raunfærnimat er valkostur.  Á næstu fjórum árum má því búast við verulegri fjölgun starfsgreina þar sem raunfærnimat býðst.

Listi yfir starfsgreinar þar sem raunfærnimat hefur farið fram

Tölfræði FA um raunfærnimat

Sjá lög um framhaldsfræðslu

Sjá reglugerð um framhaldsfræðslu