Select Page

Menntamálastofnun hefur nú vottað þrjár nýjar námskrár Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep. Menntamálastofnun vottar námskrár á grundvelli 6. greinar laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og 8.-10. gr. reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Markmið með vottun sem þessari er að stuðla að aukinni viðurkenningu náms sem fer fram utan formlega skólakerfisins og tryggja gæði og gegnsæi námstilboða viðurkenndra fræðsluaðila í framhaldsfræðslu.

Fagnám fyrir starfsþjálfa
Námskráin „Fagnám fyrir starfsþjálfa“ byggir á starfaprófíln sem er afrakstur hæfnigreiningar hjá Fræðslumiðstöðinni. Námskráin lýsir námi á 2. og 3. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Námið er ætlað þeim sem sinna eða hafa hug á að sinna starfsþjálfun á sínum vinnustað. Markmið námsins er að starfsþjálfar hafi þá hæfni sem þarf til að sinna skilgreindum viðfangsefnum starfsþjálfa samkvæmt hæfnigreiningu starfsins.

Nánari upplýsingar um þessa námskrá og aðrar starfstengdar námskrár má finna hér

Skjalaumsjón
Námskráin Skjalaumsjón byggir á starfaprófílnum „Starfsmaður við skjalaumsjón“ sem unnin var af Framvegis – miðstöð símenntunar. Skjalaumsjón lýsir námi á 2. Þrepi. Námið er ætlað þeim sem sinna eða hafa hug á að sinna starfi við skjölun og frágang skjala.

Nánari upplýsingar um þessa námskrá og aðrar starfstengdar námskrár má finna hér

Líf og heilsa – lífsstílsþjálfun
Líf og heilsa – lífsstílsþjálfun er nám á 2. þrepi hæfniramma um íslenskt menntakerfi. Markmið námsins er að auka þekkingu námsmanna á áhrifaþáttum heilsu, leikni þeirra í heilsulæsi og hæfni til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Námskráin er unnin í samstarfi við SÍBS og Austurbrú.

Nánari upplýsingar um þessa námskrá og aðrar almennar námskrár má finna hér

Skipholti 50b 105 Reykjavík

599 1400

frae@frae.is