Fyrirmyndir í námi fullorðinna 2015

 

Fyrirmyndir í námi fullorðinna er viðurkenning sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur veitt árlega frá árinu 2007. Framtíðin í framhaldsfræðslu, var yfirskrift fundar sem haldinn var á Grand Hótel þann 30. nóvember síðastliðinn. Þetta árið var tveim einstaklingum veitt viðurkenningin, þeir voru; Dragan Pavlica frá Símey og Kristján Jónsson frá Iðunni fræðslusetri, auk þeirra var í fyrsta skipti veitt viðurkenning til hóps, en viðurkenninguna hlaut starfsfólk FISKseafood sem stundaði nám í fisktækni hjá Farskólanum á Norðurlandi vestra. Þetta árið eiga allir verðlaunahafarnir það sameiginlegt að hafa sótt sér frekari menntun í kjölfar raunfærnimats.

Dragan Pavlica er upphaflega frá Króatíu og kom til Íslands árið 2003 sem flóttamaður. Hann settist að á Akureyri og fékk starf hjá málarameistara, en hann hafði áður unnið við að mála í flóttamannabúðum í Serbíu. Eftir hvatningu frá atvinnuveitenda sínum fór Dragan í raunfærnimat í málaraiðn hjá Símey árið 2008. Honum gekk vel í matinu og kláraði í framhaldinu nám í bóklegum greinunum í Námi og þjálfun hjá Símey. Eftir að hafa lokið bóklegu greinunum og bætt íslenskuna fór Dragan í Verkmenntaskólann á Akureyri til þess að ljúka þeim faggreinum sem vantaði upp á eftir raunfærnimatið. Þaðan lauk hann sveinsprófi árið 2011 og er í Meistaraskólanum í dag samhliða vinnu sinni sem húsvörður í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Kristján Jónsson hóf nám í málaraiðn í Iðnskólanum eftir að hafa lokið grunnskóla, hann hætti þó strax eftir fyrstu önnina og dróst í óreglu, áfengisneyslu og síðar í harðari efni. Árið 2010 fór Kristján í áfengismeðferð og að henni lokinni í "Grettistak" sem er samstarfsverkefni Tryggingastofnunar og Reykjavíkurborgar þar sem markmiðið er að gefa þeim sem átt hafa við langvarandi og alvarlegan vímuefnavanda tækifæri til endurhæfingar eftir meðferð. Næsti áningastaður var Hringsjá, en þar segist Kristján hafa komist að því að hann gat vel lært. Einn daginn rakst hann svo á auglýsingu um raunfærnimat í málaraiðn hjá Iðunni, hann sló til þar sem hann hafði unnið nokkuð við að mála. Í matinu kom í ljós að hann hafði mikla þekkingu í faginu, hann fór í framhaldið í Tækniskólann og lauk sveinsprófi í málaraiðn. Kristján hafði snúið lífi sínu við, snúið baki við óreglunni, lokið formlegu námi og kominn í fasta vinnu. Eftir forræðisdeilu hafði hann einnig fengið fullt forræði yfir dóttur sinni sem segist vera mjög stolt af pabba sínum.

Hópur fólks frá FISKseafood lauk raunfærnimati í fisktækni haustið 2014 eftir heimsókn svokallaðs fræðsluerindreka í tengslum við verkefnið Menntun núna í Norðvesturkjördæmi. Það voru 17 einstaklingar sem luku matinu og þrátt fyrir að nokkrir einstaklingar innan hópsins hafi átt við námsörðuleika að stríða fóru allir í áframhaldandi nám í fisktækni til að ljúka því sem upp á vantaði eftir raunfærnimatið. Hópinum hefur gengið vel í náminu, það er góður andi innan hópsins og leiðbeinendur hafa hrósað þátttakendunum fyrir jákvæðni og dugnað. Stefnt er að því að hópurinn ljúki náminu vorið 2016.

IMG 1116 Copy