Málþing um árangur tilraunaverkefnanna Menntun núna

Á málþinginu var farið yfir lærdóm úr verkefnunum og skoðað hvernig megi yfirfæra það sem vel hefur gengið. Tilraunaverkefnin hafa staðið yfir í á annað ár, annars vegar í Breiðholtshverfinu og hins vegar á svæði Norðvesturkjördæmis. Bæði verkefnin miðuðu að því að efla menntun með auknu samstarfi aðila. Í Breiðholtinu var áhersla á fræðslu í nærsamfélaginu, að efla innflytjendur með íslenskunámi og samfélagsfræðslu, stuðla að viðurkenningu á færni og að ná til brotthvarfsnema á svæðinu. Í Norðvesturkjördæmi var áhersla á að efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á vinnustað, auka samstarf atvinnulífs og fræðsluaðila um starfstengt nám, fjölga einstaklingum sem ljúka iðnnámi og efla íslenskukunnáttu innflytjenda.

Umræður á málþinginu snérust meðal annars um:

  • Mikilvægi aukins samstarfs á milli aðila (á svæði/innan hverfis) einstaklingnum til heilla
  • Áherslu á áframhaldandi þróun móttökuviðtals fyrir innflytjendur, þar sem svonefndir "brúarsmiðir" fá þjálfun í að aðstoða samlanda sína við að nýta tækifæri sín í nýju landi
  • Hlutverk fræðsluerindreka á vegum símenntunarmiðstöðva við að koma á samstarfi við fyrirtæki um færniþróun starfsmanna
  • Nýjar kennsluaðferðir við íslenskukennslu með áherslu á þátttöku samfélagsins og virkni innflytjenda

Ljóst er að samstarfi, ferlum og tengslum hefur verið komið á sem má viðhalda og yfirfæra á önnur svæði/hverfi. Sú nálgun kallar á vilja til að sameina krafta í átt að markvissari þjónustu.
FA mun taka saman þennan lærdóm í skýrslu sem verður tilbúin í ágúst og er ætlunin að vinna áfram með niðurstöðurnar á vettvangi framhaldsfræðslunnar í kjölfarið. Nánari upplýsingar um tilraunaverkefnin er að finna á heimasíðu þeirra:
http://www.menntun-nuna.is/

Menntun núna.JPG