FA þátttakandi í Evrópuverkefni um ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna námsmenn

Logo1Logo2

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er þátttakandi í nýju verkefni styrktu af Erasmus+ mennta-, æskulýðs og íþróttaáætlun Evrópusambandsins. Sjóðurinn veitir m.a. styrki í verkefni þar sem þróaðar eru nýjungar í menntamálum í gegnum alþjóðlegt samstarf. Verkefnið snýst um ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna námsmenn (Guidance and Orientation for Adult Learners - GOAL). FA naut stuðnings Rannís, sem er Landskrifstofa menntahluta Erasmus+ á Íslandi, og menntamálaráðuneytis við öflun verkefnisins.

Verkefnið hófst formlega 1. febrúar 2015 og er undir forystu flæmska mennta- og menningarmálaráðuneytisins í Belgíu. Önnur samstarfslönd eru Holland, Tékkland, Slóvenía, Litháen og Tyrkland. Að auki starfar breskur matsaðili með verkefninu sem metur þróun þess og niðurstöður í samstarfi við innlenda aðila verkefnisins og mun í lok þess skila af sér samantektarskýrslu um heildarniðurstöður. Verkefnið er til þriggja ára og er upphæð fjármagns í framkvæmd hér á landi tæpar 63 milljónir íslenskra króna. Samstarfsaðilar FA í verkefninu eru Mímir-símenntun og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Verkefnið miðar að því að þróa leiðir fyrir heildstæða ráðgjafarþjónustu fyrir hópa í samfélaginu sem sækja síður í nám. Byggt verður á þjónustu sem er nú til staðar í löndunum en áhersla verður lögð á meiri árangur með auknu samstarfi allra hagsmunaaðila. Skilgreindar verða árangursríkar leiðir til að virkja markhópinn til náms. FA ásamt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum hafa á undanförnum árum þróað öfluga náms- og starfsráðgjafaþjónustu innan framhaldsfræðslunnar en þörf er á að færa vettvanginn nær fleiri hópum í því skyni að hvetja til náms. Unnið verður í nánu samstarfi við sveitarfélög og starfsstöðvar Vinnumálastofnunar á viðkomandi svæðum.

Frekari upplýsingar veita Fjóla María Lárusdóttir og Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir.