Fyrirmyndir í námi fullorðinna 2014

Fyrirmyndir í námi fullorðinna er viðurkenning sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur veitt árlega frá árinu 2007. Árangur og framtíð framhaldsfræðslu, var yfirskrift fundar sem haldinn var á Hótel Natura þann 4. desember síðastliðinn. Þar var þremur einstaklingum veitt viðurkenningin, þau voru; Margrét Gígja Rafnsdóttir frá Framvegis - miðstöð símenntunar, Ólöf Ásta Salmannsdóttir, Símey og Sigurður Oddsson frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa tekið þátt í vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar hjá símenntunarmiðstöðvunum og í kjölfarið breytt stöðu sinni á vinnumarkaði til hins betra. Þau eiga það einnig sameiginlegt að vera öðrum fyrirmynd í þessari vegferð og eru því vel að nafnbótinni komin. Fyrirmyndirnar þrjár vildu allar koma þakklæti á framfæri við símenntunarmiðstöðvarnar sem þau höfðu sótt námið hjá. Þeim bar saman um að fyrirkomulagið sem framhaldsfræðslan býður upp á ætti stóran þátt í því að þau hefðu lokið þessum áföngum, sótt sér frekari menntun og bætt stöðu sína á vinnumarkaðinum.

Margrét Gígja Rafnsdóttir hætti snemma í námi m.a. vegna lestrarörðuleika og fór ung út á vinnumarkaðinn. Hún stendur uppi einstæð og atvinnulaus með litla starfsreynslu og takmarkaða menntun fyrir fáum árum. Fyrir tilstuðlan Vinnumálastofnunar fékk Margrét Gígja aðstoð vegna lesblindu sinnar og í framhaldi af því sækir hún Grunnmenntaskólann hjá Mími. Að því loknu lauk Margrét Starfsnámi stuðningsfulltrúa (grunn- og framhalds námsskrá) hjá Framvegis - miðstöðvar símenntunar. Í dag starfar Margrét Gígja á leikskólanum Rauðhóli og unir hag sínum vel. Hún er afar þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið og telur þau úrræði sem stóðu henni til boða hafa reynst henni einskonar lífsbjörg í ólgusjó.

Ólöf Ásta Salmannsdóttir lauk námi í Menntastoðum hjá Símey vorið 2012 og Háskólabrú Keilis á Akureyri vorið 2013 með góðum árangri. Stefnan hjá Ólöfu var að fara í háskólanám og læra viðskiptafræði. Í stað þess að fara í háskólanám ákvað fjölskylda Ólafar að stofna fyrirtæki og er það svo að nú reka þau vinsæla sælkeraverslun á Akureyri sem heitir Fiskompaníið. Þar nýtist kraftur og áræðni Ólafar vel sem og vilji hennar til að veita góða þjónustu.

Sigurður Oddsson átti erfitt uppdráttar í námi strax í grunnskóla. Eftir allmörg ár á vinnumarkaði fékk Sigurður loks greiningu á lestrarörðuleikum sínum, hann var með skrif- og lesblindu ásamt hljóðvillu. Eftir að hafa miss vinnu í byggingariðnaði eftir hrunið innritaði Sigurður sig í námsleiðina Skref til sjálfshjálpar sem hjálpaði honum að takast á við lesblinduna. Sigurður fékk svo vinnu hjá Norðuráli þar sem hann sótti Nám í stóriðju. Hann lét ekki þar við sitja heldur stundar hann nú helgarnám í vélvirkjun hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands samhliða vinnu sinni hjá Norðuráli þar sem hann unir hag sínum vel.

Aaaaa