RETRAIN - Evrópuverkefni um nám fyrir leiðbeinendur í verslunarstörfum

Undirbúningur er hafinn að námi fyrir leiðbeinendur í verslunum sem fara með verklega kennslu. Með því er ætlunin að leysa úr brýnni þörf fyrir viðurkennda þjálfun starfsmanna í verslunum sem hingað til hefur ekki verið til. Þróun námsins fer fram í samstarfi við evrópska samstarfsaðila og er verkefnið styrkt af Leonardo da Vinci starfsmenntaáætlun ESB. Stjórnendur verkefnisins eru Rannsóknasetur verslunarinnar og Háskólinn á Bifröst og felst aðkoma Fræðslumiðstöðvarinnar í því að leggja til sérþekkingu á uppbyggingu starfsþjálfanáms. 

Markmið verkefnisins er að koma á laggirnar námi fyrir starfsþjálfa í verslunum sem miðar að því að til verði sérhæfðir starfsmenn sem geti tekið að sér þjálfun og verklega kennslu nýrra verslunarstarfsmanna. Námið skiptist í fimm námskeiðshluta þar sem nemendur koma saman auk heimavinnu sem verður meðal annars unnin í gegnum samfélagsmiðla, að því loknu verður mat og eftirfylgni á vinnustað. Námsþættirnir fela m.a. í sér árangursrík samskipti, samvinnu, aðstoð við starfsþróun og færnieflingu, vinnusiðferði og gildi og aðlögunarhæfni.

Tilraunanámskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í verslunum Samkaupa var haldið í október sl. Ætlunin er að í framtíðinni verði námið viðbót við Diplómanám í verslunarstjórnun sem kennt hefur verið við Háskólann á Bifröst um tíu ára skeið.

Vefur verkefnisins er http://www.retrain.is/

Umsjón: Guðfinna Harðardóttir.