Nýtt Nordplus verkefni um rafrænar viðurkenningar í fullorðinsfræðslu

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tekur þátt í norræna samstarfsverkefninu Open Badges for adult educators. Markmið verkefnisins er að þróa rafrænar viðurkenningar í fullorðinsfræðslu, auka notkun upplýsingatækni og samfélagsmiðla í fullorðinsfræðslu og efla enn frekar umræðu um fullorðinsfræðslu á netinu.

Með því að nota rafræna miðla, bæði til að miðla efni til námsmanna en einnig til að eiga samskipti við samstarfsfólk og aðra í fullorðinsfræðslugeiranum, skapast vettvangur til að auka umræðu um ýmsa þætti er varða fullorðinsfræðslu og einnig eykst færni leiðbeinenda í að nota tæknina og samfélagsmiðla í starfi sínu.

Vefur verkefnisins er í smíðum en fylgjast má með umræðu bæði með því að gerast meðlimur í Facebookhópnum "Open badges for adult educators" og á Twitterundir krossmerkinu #folkbadge. Fræðslumiðstöðin hvetur alla áhugasama að taka þátt í verkefninu og umræðunni.

Verkefnið er styrkt af Nordplus, menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar, og verður unnið á tímabilinu ágúst 2014 - ágúst 2016. Samstarfsaðilar FA eru:

Hvað eru rafrænar viðurkenningar?

Sem dæmi um rafræna viðurkenningu má nefna rafrænan verðlaunapening sem þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoni er sendur með tölvupósti að afloknu hlaupi. Verðlaunapeninginn er hægt að nota á samfélagsmiðlum og á honum kemur fram nafn þátttakanda og hlaupatími. Rafræna viðurkenningin sem er í smíðum í Nordplus verkefninu mun gefa fullorðinsfræðsluaðilum færi á að sýna fram á þátttöku og hæfni í umræðu um fullorðinsfræðslu og notkun rafrænna miðla.

Nordplus Adult Picture