SÍMEY - Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar

Þrettán fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar hafa hlotið EQM gæðavottun

Í dag fengu sex fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar afhendar staðfestingar á að þær hafi staðist gæðavottun skv. European Quality Mark (EQM) gæðaviðmiðunum, þær eru: SÍMEY-Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Austurbrú, Fræðslunet Suðurlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Símenntunarmiðstöðin Vesturlandi. Með gæðavottun EQM er staðfest að starfsemin stenst evrópskar kröfur um gæði fræðslustarfsemi.

Árið 2011 gerði FA samning við vottunarstofu um gæðavottunarúttekt og bauð fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sem eru í samstarfi við FA, að sækja um fyrstu úttektirnar. Nú hafa þrettán miðstöðvar staðist gæðaúttekt og hlotið vottun skv. EQM gæðamerkinu, þær eru auk þeirra sex fyrrnefndu: IÐAN fræðslusetur, Þekkingarnet Þingeyinga, Starfsmennt fræðslusetur, Framvegis, Farskólinn - miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, Mímir-símenntun og Viska - fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) veitir gæðavottunina en FA hefur unnið að þróun gæðaviðmiða í fræðslustarfi fyrir fullorðna á liðnum árum m.a. með þátttöku í verkefninu RECALL -Recognitions of Quality in Lifelong Learning sem var samstarfsverkefni átta Evrópuþjóða með styrk frá Leonardo da Vinci, menntaáætlun ESB. Verkefninu var stýrt af FA og gekk út að byggja upp EQM gæðavottunarferlið, sem byggt er á viðurkenndum samevrópskum gæðaviðmiðum fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu. EQM vottunarferlið byggir á tveimur grundvallaraðferðum gæðastjórnunar, sjálfsmati og eftirliti og með vottuninni er staðfest að starfsemin uppfyllir viðmið EQM.

IMG 1858
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
(FA) veitti í dag fulltrúum sex fræðslu- og símenntunarmiðstöðva EQM gæðavottun.
Frá vinstri: Ingibjörg Elsa, Guðrún Lárusdóttir f.h. Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands,
Erla Björg Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Símeyjar, Smári Haraldsson
framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir f.h.
Fræðslunets Suðurlands, Guðjónína Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar
símenntunar á Suðurnesjum og Ragna Hreinsdóttir f.h. Austurbrúar.

Fleiri upplýsingar má finna á www.frae.is og http://www.europeanqualitymark.org/.