Þekkingarnet Þingeyinga fyrst símenntunarstöðva að hljóta EQM gæðavottun

Þekkingarnet Þingeyinga hefur nú hlotið gæðavottun sem kallast European Quality Mark (EQM). Með þessari vottun er staðfest að símenntunarstarfsemi Þekkingarnetsins stenst evrópskar kröfur um gæði fræðslustarfsemi. Það er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) sem veitir gæðavottunina en FA hefur unnið að þróun gæðaviðmiða í fræðslustarfi fyrir fullorðna á liðnum árum.

Þekkingarnet Þingeyinga er fyrst símenntunarmiðstöðva innan Kvasis (samtaka símenntunarmiðstöðva) til að hljóta þessa vottun. Stofnunin hefur lagt mikla áherslu á þróun gæðastarfs síðastliðin misseri og vann m.a. þróunarverkefni um innleiðingu EQM gæðakerfisins fyrir símenntunarmiðstöðvar á liðnu ári með stuðningi Fræðslusjóðs.

Thingeyingar EQM
Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga tekur við viðurkenningu
um EQM-vottun frá Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra
Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.