Úthlutunarreglur Þróunarsjóðs

Nýsköpunar- og þróunarverkefni

 

Úthlutunarreglur og skilmálar

 

Inngangur
Lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 taka til skipulags framhaldsfræðslu og þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við framkvæmd hennar. Framhaldsfræðsla er skilgreind sem hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.

1. Hlutverk
Hlutverk Þróunarsjóðs framhaldsfræðslu er að veita styrki til skilgreindra nýsköpunar- og þróunarverkefna á sviði framhaldsfræðslu. Sjóðurinn starfar undir stjórn Fræðslusjóðs og er stjórninni heimilt að ráðstafa fjármagni til sérstakra verkefna án auglýsingar í því skyni að efla þróun málaflokksins samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu. Stjórn Fræðslusjóðs ákveður fjárhæð til úthlutunar samkvæmt neðangreindum reglum á hverju ári.

2. Forgangssvið
Stjórn Fræðslusjóðs ákveður hverju sinni forgangssvið í samráði við úthlutunarnefnd, sem falla að lögum um framhaldsfræðslu.

3. Auglýsing
Stjórn Fræðslusjóðs auglýsir opinberlega eftir umsóknum um styrki og skal auglýsing birtast í dagblöðum á landsvísu og á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Í auglýsingu skulu koma fram forgangssvið stjórnar hverju sinni, viðmið við mat á umsóknum og umsóknarfrestur.

Auglýsing skal birt í mars ár hvert og skal frestur til að skila inn umsóknum vera um þrjár vikur. Umsóknum skal skila inn á þar til gerðum eyðublöðum.

4. Afgreiðsla umsókna og úthlutun
Stjórn Fræðslusjóðs skipar 5 manna úthlutunarnefnd sem metur umsóknir og úthlutar styrkjum í samræmi við reglur sjóðsins.

Við mat á umsóknum er tekið mið af því hvort verkefnin nýtist beint innan framhaldsfræðslunnar, feli í sér vel skilgreinda nýsköpun og þróun og auglýst forgangssvið stjórnar sem og tengsl við neytendur. Þá er einnig horft til gæða umsóknar, fjárhagsáætlunar og trúverðugleika. Fjárframlag frá öðrum og/eða samstarf um verkefnið er kostur.

Úthlutun skal lokið í maí ár hvert og skal niðurstaðan tilkynnt umsækjendum skriflega svo fljótt sem verða má.

5. Verkefni sem hljóta styrk
Gerður er sérstakur samningur við styrkhafa þar sem fram koma m.a. samningsskilmálar Fræðslusjóðs, meðferð höfundarréttar, áætluð verklok og greiðslufyrirkomulag styrks.

Að verkefni loknu skal styrkhafi skila afurðum verkefnisins og fjárhagsuppgjöri til stjórnar Fræðslusjóðs.


Samþykkt af mennta- og menningarmálaráðherra 4. júlí 2014