Upplýsingar um vinnuferli og viðmiðanir

Styrkir til þróunar og nýsköpunar í framhaldsfræðslu 2017

Upplýsingar um vinnuferli og viðmiðanir

Þróunarsjóður framhaldsfræðslu er deild í Fræðslusjóði sem hefur það hlutverk að veita styrki til skilgreindra nýsköpunar- og þróunarverkefna á sviði framhaldsfræðslu. Sjóðurinn lýtur stjórn Fræðslusjóðs sem auglýsir styrki í því skyni að efla þróun málaflokksins samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu.

1. Hverjir geta sótt um?

Öllum er heimilt að sækja um styrk. Styrkþegi þarf að geta sýnt fram á að markmið verkefnis falli að lögum um framhaldsfræðslu nr. 27.2010. Jafnframt þarf hann að sýna fram á faglega þekkingu eða reynslu sem gerir honum kleift að vinna verkefnið sem sótt er um og útskýra á hvern hátt verkefnið tengist 2. gr. laga um framhaldsfræðslu.

2. Styrkupphæð

Til úthlutunar eru allt að 36.500.000 kr. Hámarksupphæð sem úthlutað er til einstakra verkefna er 3.000.000 kr. Ekki er veittur hærri styrkur en nemur kostnaði við verkefni sem sótt er um. Styrkþegi skal sýna fram á útgjöld vegna verkefnisins áður en lokagreiðsla er innt af hendi.

3. Afgreiðsla umsókna og úthlutun

Stjórn Fræðslusjóðs skipar fimm manna matsnefnd sem metur umsóknir og gerir tillögur til stjórnar Fræðslusjóðs um úthlutun styrkja í samræmi við reglur sjóðsins.

Við mat á umsóknum er fyrst og fremst metið hvaða nýsköpun og þróun felst í verkefni, innan ramma laga um framhaldsfræðslu og forgangssviða stjórnar, hversu trúverðugt verkefnið er og hversu líklegt er að yfirlýst markmið þess náist. Einnig er tekið mið af því á hvern hátt verkefni nýtist innan framhaldsfræðslunnar, hvort það þjóni þörfum markhóps framhaldsfræðslulaga, hvort markmið verkefnis séu vel skilgreind og hvort gert sé ráð fyrir tilraunakennslu og forprófunum þegar það á við. Þá er lagt mat á hvort sundurliðuð verk-, tíma-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlun sé skýr og raunhæf og hvort sýnt sé fram á að verkefnið sé fullfjármagnað fáist til þess styrkur. Samstarf við viðurkennda fræðsluaðila um verkefnið er álitið kostur og óskað er eftir staðfestum gögnum og lýsingu á samstarfinu.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr sjóðunum þarf hann að hafa staðið við skilmála vegna fyrri styrkja til að ný umsókn komi til greina.

Úthlutun skal lokið í maí ár hvert og skal niðurstaðan tilkynnt umsækjendum skriflega svo fljótt sem verða má. Upplýsingar um nöfn styrkþega, heiti verkefna og styrkfjárhæðir eru birtar á vef sjóðsins.

4. Verkefni sem hljóta styrk

Gerður er sérstakur úthlutunarsamningur við styrkhafa, þar sem fram koma m.a. samningsskilmálar Fræðslusjóðs, meðferð höfundarréttar þar sem við á, áætluð verklok og greiðslufyrirkomulag styrks. Fyrsta greiðsla styrks er 40% af heildarupphæð og fer fram við undirritun samnings. Eftir að áfangaskýrslu er skilað og eigi síðar en ári eftir undirritun verksamnings fer önnur greiðsla fram og er hún 30% af heildarupphæð samnings. Að verkefni loknu skal styrkhafi skila sýnishorni af afurðum verkefnisins ásamt lokaskýrslu og fjárhagsuppgjöri til Fræðslusjóðs. Lokagreiðsla fer fram þegar styrkþegi hefur uppfyllt skilyrði vegna styrks. Lokaskýrsla er birt á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisins.

5. Áfangaskýrsla

Áfangaskýrslu skal skila til Fræðslusjóðs eigi síðar en ári eftir undirritun samnings. Áfangaskýrslu skal skilað áður en önnur greiðsla fer fram. Í áfangaskýrslu skal gera grein fyrir framvindu verkefnis, m.a. hvernig gengið hefur að vinna eftir upphaflegri verkáætlun og greina frá frávikum séu þau einhver. Leiðbeiningar um gerð áfanga- og lokaskýrslna má nálgast HÉR.

6. Úthlutunarsamningur og verklok

Styrkþegi skal staðfesta úthlutunarsamning innan mánaðar frá tilkynningu um úthlutun, að öðrum kosti afturkallar stjórn sjóðsins styrkinn. Styrkhafa ber að skila sýnishorni fullunnins verkefnis eigi síðar en tveimur árum frá dagsetningu verksamnings.

7. Endurkröfuréttur

Ef verkefni er ekki unnið í samræmi við umsókn eða úthlutunarsaming hefur Fræðslusjóður heimild til að krefjast endurgreiðslu styrks að hluta eða heild eða fella lokagreiðslu niður. Áður en slík ákvörðun er tekin skal gefa styrkþega tækifæri til að skýra mál sitt.

8. Ábyrgð

Styrkþegi ábyrgist að styrknum verði einungis ráðstafað til verkefnisins, í samræmi við áætlun sem fylgdi umsókn og þau markmið sem lýst er í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila áfangaskýrslu, lokaskýrslu, sýnishorni fullunnins verkefnis og fjárhagsuppgjöri.

9. Kæruréttur

Ákvarðanir Fræðslusjóðs samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu sæta ekki kæru til ráðherra.

Sjá einnig Skilmála og úthlutunarreglur Fræðslusjóðs HÉR